Lífið í dag

Jæja, þá er enn ein helgin að baki.
Jónas og Stefanía fóru til Danaveldis og skildu okkur hin eftir á skerinu, við höfum það svo sem ágætt saman, afslöppun og rólegheit.
Ég er að vinna eins og skepna til að eiga fyrir jólum, búin að taka slatta af næturvöktum til að fá smá "boost" á launaseðilinn, annars er ég yfirleitt að vinna á kvöldin. Vinnan gengur vel og ég er ánægð að vera í skítnum og hávaðanum, það á einhvern veginn við mig. Annars gerðist það á föstudaginn að ég var að vinna á ofnunum (þar er ég að vinna með 1500 gráðu heitann málm) að ég sem er hrakfallabálkur ársins tókst að brenna mig á mínútugrilli, kaldhæðnin. Brunasárið hefst vel við og verður gróið áður en ég veit af.
Birgir minn fer í heyrnarmælingu í dag, þá fæ ég að vita hvort hann sé að heyra almennilega, læknirinn hafði smá áhyggjur af því að hann talar svo lítið. Ég hef litlar áhyggjur af því, hann er skýr strákur og virðist vera alveg heilbrigður, Bjarni talaði svo sem ekki mikið á þessum aldri heldur.
Svo er að koma tími á jólabakstur, ég, Ásrún og mamma ætlum að hittast um næstu helgi og baka saman, eða baka vandræði, það verður að koma í ljós.
Það vantar bara Stebba í hópinn, en við málum nokkrar piparkökur fyrir hann, hans er sárt saknað eins og alltaf, lífið er bara ekki samt án hans, hann sem var alltaf til í að vera með og elskaði fjölskylduna meira en nokkuð annað, þvílíkur missir sem aldrei á eftir að jafna sig.
Linda mín á erfitt þessa dagana, að missa litla barnið sitt er svo hræðilegt, ég hugsa mikið til hennar og vona að hún jafni sig og geti glaðst yfir þeim tveim yndislegu sem hún á, þó að það litla gleymist aldrei, það verður minning í hjartanu um ókomna tíð.
Við vorum í mat hjá mömmu í gærkvöldi ég, Birgir og Bjarni, fengum  bayonne skinku með allskonar meðlæti, frábær matur eins og alltaf hjá mömmu.
Ég er svo sem enginn ofurbloggari en ég skal reyna að vera duglegri að skrifa það sem á daga okkar drífur, málið er bara að finna tíma til að setjast niður.
Vona að allir hafi það gott og líði vel
Skjáumst
Júllan

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já dúllan mín,,,það rennur í fjölskyldunni að vera hrakfallabálkur þegar hitatæki eru annars vegar Sendi ykkur góðar kveðjur

Edda (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 15:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband