Hugsanir

Sæl öll
Mér datt í hug að skrifa smá pistil um hugsanir þar sem ég hef verið mikið að spekúlera og spá undanfarið.
Það er svo merkilegt við hugann að maður getur oft ekki haft neina stjórn a honum, til dæmis poppa upp minningar sem eru oft góðar en alltaf læðast þessar slæmu með líka.
Nú reyni ég yfirleitt að einbeita mér að því góða í lífinu, þótt ég hafi komist svo illilega að því að lífið getur verið svo ósanngjarnt, þá lífsreynslu fékk ég síðasta sumar.
Ég vaknaði á björtum sunnudegi og hugsaði mér gott til glóðarinnar, bara að slappa af og sóla sig, Stebbi, elsku stóri bróðir minn, heima í skúrnum og litli Týr nýkominn frá Noregi, Við Stebbi og Bjarninn minn höfðum vakað langt fram á nótt að horfa á sjónvarpið og skemmtum okkur svo vel, hlógum og hlógum. Um 10 leitið ákveða Týr og Stefnía mín að skella sér í pottinn, ég fæ mér sæti á pallinum með litla Birgi minn (3 mán) og passa upp á þau, Stebbi kemur til mín og segist þurfa að skreppa aðeins, og stingur upp á að koma við í bakaríi svo við getum haft smá veislu á pallinum seinna um daginn, Tý vill alls ekki fara með pabba sínum svo að hann fær að vera eftir hjá Júllu frænku, svo labbar Stebbi minn bara út og segir um leið "ég verð ekki lengi, bless á meðan", ég hefði aldrei trúað að þetta væru síðustu orðin sem hann átti eftir að segja við mig.
Um hálf eitt vorum við farin að undrast soldið hvað hann var lengi en vorum svo sem ekkert óróleg nema Týr sem spurði oft um pabba, hvort hann færi nú ekki að koma. Þegar síminn hringir svo og Áslaug mágkona spyr um Stebba og hvar Týr sé og hljómar ekki alveg eins og hún á að sér veit ég að ekki er alt eins og það á að vera, eitthvað hafði gerst. Lögreglumaður segist vilja koma að tala við mig og ég fæ auðvitað algjört sjokk, ég finn að ég get ekki verið ein þarna með 4 börn svo að ég hringi og fæ hann frænda minn til að vera hjá mér, eitthvað töfðust löggurnar svo að ég hringi aftur í Áslaugu og hún kemur grátandi í símann, ég  fæ hana til að segja mér hvað sé í gangi og hún segir þessi hræðilegu orð sem glymja aftur og aftur í hausnum á mér " Júlla, Stebbi er dáinn". Heimurinn hrynur og ég verð dofin og get ekkert gert, löggan kemur um síðir og segir okkur að hann hafi verið myrtur, ég var voða róleg og sagði ekki mikið, ég held að ég hafi bara verið frosin, ég grét eftir að þeir fóru og svo gerði ég ekki meira af því í bili, nú þurfti ég að standa mig og klára ýmsa hluti, fyrst af öllu að fá mömmu heim ( hún var í USA hjá Ásrúnu systur), svo þurfti ég að hringja í pabba, Jónas, Ömmu og alla, Jónas kom í hendingskasti og sem betur fer tók hann stjórnina því ég var eiginlega bara að labba í hringi. Um 4 eða 5 leitið fórum ég, Jónas og Áslaug niðrá Borgarspítala til að bera kennsl á hann, Jú þetta var hann en hann gat bara ekki verið dáinn, hann var svo fallegur, svo lifandi, við biðum bara eftir að hann settist upp og brosti, ég man að ég sá í augun á honum og þau voru bara glitrandi og fallega björt, hann gat bara ekki verið farinn. Restin af deginum leið í eins konar þoku, ég man að hafa hitt eitthvað fólk en er samt ekki viss hverjir það voru eða hvort ég sagði eitthvað, Hulda mágkona mín kom og tók til sín 2 yngri börnin mín og Týr fór til ömmu sinnar, Bjarni minn var hjá okkur og ég er fegin því, þá hafði ég hann til að passa, mér fannst ég ekki alveg gagnslaus. Ég held að ég hafi sofið eitthvað en er samt ekki viss, kannski dormaði ég bara. Næstu dagar voru hræðilegir, fullir af grátandi fólki og faðmlögum, ég man samt ekki mikið, ég held að hugurinn sé að fela þetta fyrir mér þangað til ég er tilbúin að takast á við það. Mamma, Bjössi, Ásrún og Chemon komu heim á þriðjudegi, og þá gat ég fókusað á að hjálpa mömmu, einhvern veginn þurfti ég að hafa einhvern að hugsa um, ég vissi ekkert hvernig ég átti að vera sjálf þannig að allir hinir fengu mína umönnun.
Svona var nú það, erfiðast dagur sem ég hef upplifað og vonandi sá alversti sem ég þarf að ganga í gegn um, svona má ekki gerast oftar en einu sinni.
Að missa hann stóra bróður minn er það hræðilegasta sem ég hef þurft að lifa, ég er enn í sárum og verð sennilega lengi enn, ég er ekki farin að gráta nema í smáskömmtum, ég ber enn kökkinn í hálsinum og steininn í brjóstinu, en ég reyni að bera mig vel þó að mér líði skelfilega illa oft.
Nú get ég ekki skrifað meira í bili, ég er úrvinda og sé ekki á lyklaborðið eða skjáinn fyrir tárum.
Skjáumst
Júllan
ps. afsaka villur, ég get ekki lesið þetta yfir.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafdís Lilja Pétursdóttir

Öll él birtir upp um síðir, smám saman fennir yfir gengin spor.  Engu að síður eru þau til staðar.

Njóttu þess sem þú hefur, dagsins og lífsins.

 Flower 

Hafdís Lilja Pétursdóttir, 18.5.2008 kl. 09:27

2 Smámynd: Bergdís Rósantsdóttir

Bergdís Rósantsdóttir, 18.5.2008 kl. 11:08

3 Smámynd: Marta smarta

Elsku Júllan mín. Við reynum bara að halda áfram það er ekkert annað í boði.  Þú veist að við stöndum öll saman í þessu og hjálpumst að stóra stúlkan mín.  Elska þig, mamma.

Marta smarta, 18.5.2008 kl. 11:54

4 identicon

Úff Júlla mín. Það var ekkert smá erfitt að lesa þetta hjá þér. Ég sit hérna með tárin í augunum.

Knús á þig elsku krúttið mitt

Bryndís R (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 15:19

5 identicon

Elsku Júlla mín, tárin leka niður kinnar mínar -  ég deili sorginni með þér ... mér líður svona líka. Þetta er erfitt, en ég ætla ekki að tíunda það hér.

 Elsku drengurinn okkar allra, Guð geymi hann allatíð, eins og amma Lóa var vön að kveðja þá sem henni þótti væntum. Og maður gekk í burtu léttur í spori, með þá fullvissu að eitthvað gott fylgdi manni; verndaði.

Guð geymi þig elsku Júlla mín .

Edda Stefánsdóttir ( föðursystir ) (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 12:47

6 identicon

Sæl Júlíanna.

Þetta er mögnuð lesning hjá þér.Sjálfur hef ég upplifað óvænt lát frænda míns í bílsysi og ég trúði því ekki í marga daga. Svona getum við allveg týnt okkur við lát þeirra sem standa manni næst.Góður Guð blessi Stefáni bróðir þinn  og einnig þig og þína fjölskyldu.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 23.5.2008 kl. 11:44

7 Smámynd: Hafdís Lilja Pétursdóttir

Njóttu dagsins

Hafdís Lilja Pétursdóttir, 24.5.2008 kl. 08:27

8 Smámynd: Dísaskvísa

Ég á ekki til nein orð! Knúsur á þig.

Kv. Dísaskvísa

Dísaskvísa, 27.5.2008 kl. 20:57

9 Smámynd: Ragnheiður

Ég átti hreinlega erfitt með að lesa þetta, ég skil þessa kvöl og þessa undarlegu þoku.

 Kær kveðja til þín og hafðu það gott í fríinu

Ragnheiður , 28.5.2008 kl. 16:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband