Færsluflokkur: Bloggar

Ísbjarnarblús

Hvað er eiginlega málið með bangsana, erum við fá nýja dýrategund til landsins, ég er ekki viss um að ég sé hrifin af þessum nýbúum þó að þeir séu voða sætir. Alla vega myndi ég ekki vilja mæta einum í gönguferð.

En alla vega, við höfum það gott í útlandinu og erum orðin hrikalega brún og sælleg.

Skjáumst

Júllan


ÉG SÉ !!!!!

Jibbí

Ég er búin í aðgerðinni og allt gekk rosa vel, ég sé strax mun og get lesið texta á sjónvarpinu og séð laufblöð á trjánum og allt.

Skjáumst

Júllan


Frá útlandinu

Hæhæ allir

Mér datt í hug að skrifa ykkur frá Chesapeake, Virginia þar sem við erum í rólegheitum hjá henni litlu systur minni.

Hér er búinn að vera 40 stiga hiti og sól, við erum búin að vera í sólbaði og dúllulegheitum síðan á föstudagskvöld, erum búin að fara aðeins í wal mart og Target að versla. Sundlaugin í garðinum er æðisleg og slatta búið að nota hana.

Á morgun miðvikudag förum við Ásrún í skoðun og fáum þá að vita hvort við getum farið í aðgerð til að leiðrétta sjónina, svona laser aðgerð.  Við erum báðar að passa okkur að gera okkur engar vonir svo við verðum ekki fyrir vonbrigðum ef ekkert gerist, en það er ferlega erfitt að passa þetta, þvílíkur lúxus sem það væri að geta vaknað á morgnana og þurfa ekki gleraugu, bara opna augun og sjá. Krossum puttana.

Stefanía mín á afmæli í dag, hún er orðin 10 ára stúlkan, mikið hrikalega líður tíminn hratt, mér finnst eins og hún hafi verið lítil í gær.  Við erum búin að kaupa afmælisgjöf handa henni og komum með hana heim 28.júní.  Það er ekki alveg það sem hún bað um en ég held að hún verði glöð, það sem hún vildi fá er einum of stórt til að burðast með heim, við ætlum samt að kaupa eitt og annað stórt og fá að setja í gáminn hjá Ásrúnu og Chemon þegar þau flytja heim í haust.

En nú ætla ég að fara að sofa, stór dagur á morgun.

Skjáumst

Júllan


Sumarfrí

Nú er alveg að koma að þessu, ég á bara 4 vaktir eftir þar til ég er komin í 3 vikna frí og rúmlega það. 3 vikum ætla ég að eyða hjá henni Ásrúnu minni í USA, þar verður verslað ógurlega og restina af tímanum legið í sólbaði og hlegið.
Það er svo skrýtið að þegar við vorum litlar vorum við sko engir sérstakir vinir, ég og hún litla systir mín. En eftir að við urðum eldri virðumst við bara verða meira og meira háðar því að vera í góðu sambandi hvor við aðra. Til dæmis finnst mér vera heil eilífð síðan ég sá hana síðast þó að það hafi bara verið í vetur, ég sakna þess ósegjanlega að tala við hana og fíflast með henni.
    Bjarni minn er annars alltaf að verða myndarlegri, það er eitthvað við hann sem er svo heillandi, hann er svo blíður og góður við alla ( nema kannski Stefaníu systir sína stundum ).
    Stefanía mín er að verða 10 ára núna í júní og það er svo gaman að fylgjast með því hvað hún er að verða mikil dama, hún er svo mikil prinsessa, það þarf allt að vera í stíl og má alls ekki vera í litum sem passa ekki saman eða neitt svoleiðis. (sko ekki eins og mamman).
   Birgir minn er bara snúlli, hann er farinn að labba um allt og tætir meira en nokkru sinni fyrr, hann segir nöfnin okkar núna nema ekki sitt eigið, hann sér sennilega enga ástæðu til þess, hann er aðalnúmerið í hans heimi hvort eð er.
En alla vega gengur allt sinn vanagang á heimilinu þessa dagana, allt í orden eins og sagt er.
Skjáumst
Júllan

Hugsanir

Sæl öll
Mér datt í hug að skrifa smá pistil um hugsanir þar sem ég hef verið mikið að spekúlera og spá undanfarið.
Það er svo merkilegt við hugann að maður getur oft ekki haft neina stjórn a honum, til dæmis poppa upp minningar sem eru oft góðar en alltaf læðast þessar slæmu með líka.
Nú reyni ég yfirleitt að einbeita mér að því góða í lífinu, þótt ég hafi komist svo illilega að því að lífið getur verið svo ósanngjarnt, þá lífsreynslu fékk ég síðasta sumar.
Ég vaknaði á björtum sunnudegi og hugsaði mér gott til glóðarinnar, bara að slappa af og sóla sig, Stebbi, elsku stóri bróðir minn, heima í skúrnum og litli Týr nýkominn frá Noregi, Við Stebbi og Bjarninn minn höfðum vakað langt fram á nótt að horfa á sjónvarpið og skemmtum okkur svo vel, hlógum og hlógum. Um 10 leitið ákveða Týr og Stefnía mín að skella sér í pottinn, ég fæ mér sæti á pallinum með litla Birgi minn (3 mán) og passa upp á þau, Stebbi kemur til mín og segist þurfa að skreppa aðeins, og stingur upp á að koma við í bakaríi svo við getum haft smá veislu á pallinum seinna um daginn, Tý vill alls ekki fara með pabba sínum svo að hann fær að vera eftir hjá Júllu frænku, svo labbar Stebbi minn bara út og segir um leið "ég verð ekki lengi, bless á meðan", ég hefði aldrei trúað að þetta væru síðustu orðin sem hann átti eftir að segja við mig.
Um hálf eitt vorum við farin að undrast soldið hvað hann var lengi en vorum svo sem ekkert óróleg nema Týr sem spurði oft um pabba, hvort hann færi nú ekki að koma. Þegar síminn hringir svo og Áslaug mágkona spyr um Stebba og hvar Týr sé og hljómar ekki alveg eins og hún á að sér veit ég að ekki er alt eins og það á að vera, eitthvað hafði gerst. Lögreglumaður segist vilja koma að tala við mig og ég fæ auðvitað algjört sjokk, ég finn að ég get ekki verið ein þarna með 4 börn svo að ég hringi og fæ hann frænda minn til að vera hjá mér, eitthvað töfðust löggurnar svo að ég hringi aftur í Áslaugu og hún kemur grátandi í símann, ég  fæ hana til að segja mér hvað sé í gangi og hún segir þessi hræðilegu orð sem glymja aftur og aftur í hausnum á mér " Júlla, Stebbi er dáinn". Heimurinn hrynur og ég verð dofin og get ekkert gert, löggan kemur um síðir og segir okkur að hann hafi verið myrtur, ég var voða róleg og sagði ekki mikið, ég held að ég hafi bara verið frosin, ég grét eftir að þeir fóru og svo gerði ég ekki meira af því í bili, nú þurfti ég að standa mig og klára ýmsa hluti, fyrst af öllu að fá mömmu heim ( hún var í USA hjá Ásrúnu systur), svo þurfti ég að hringja í pabba, Jónas, Ömmu og alla, Jónas kom í hendingskasti og sem betur fer tók hann stjórnina því ég var eiginlega bara að labba í hringi. Um 4 eða 5 leitið fórum ég, Jónas og Áslaug niðrá Borgarspítala til að bera kennsl á hann, Jú þetta var hann en hann gat bara ekki verið dáinn, hann var svo fallegur, svo lifandi, við biðum bara eftir að hann settist upp og brosti, ég man að ég sá í augun á honum og þau voru bara glitrandi og fallega björt, hann gat bara ekki verið farinn. Restin af deginum leið í eins konar þoku, ég man að hafa hitt eitthvað fólk en er samt ekki viss hverjir það voru eða hvort ég sagði eitthvað, Hulda mágkona mín kom og tók til sín 2 yngri börnin mín og Týr fór til ömmu sinnar, Bjarni minn var hjá okkur og ég er fegin því, þá hafði ég hann til að passa, mér fannst ég ekki alveg gagnslaus. Ég held að ég hafi sofið eitthvað en er samt ekki viss, kannski dormaði ég bara. Næstu dagar voru hræðilegir, fullir af grátandi fólki og faðmlögum, ég man samt ekki mikið, ég held að hugurinn sé að fela þetta fyrir mér þangað til ég er tilbúin að takast á við það. Mamma, Bjössi, Ásrún og Chemon komu heim á þriðjudegi, og þá gat ég fókusað á að hjálpa mömmu, einhvern veginn þurfti ég að hafa einhvern að hugsa um, ég vissi ekkert hvernig ég átti að vera sjálf þannig að allir hinir fengu mína umönnun.
Svona var nú það, erfiðast dagur sem ég hef upplifað og vonandi sá alversti sem ég þarf að ganga í gegn um, svona má ekki gerast oftar en einu sinni.
Að missa hann stóra bróður minn er það hræðilegasta sem ég hef þurft að lifa, ég er enn í sárum og verð sennilega lengi enn, ég er ekki farin að gráta nema í smáskömmtum, ég ber enn kökkinn í hálsinum og steininn í brjóstinu, en ég reyni að bera mig vel þó að mér líði skelfilega illa oft.
Nú get ég ekki skrifað meira í bili, ég er úrvinda og sé ekki á lyklaborðið eða skjáinn fyrir tárum.
Skjáumst
Júllan
ps. afsaka villur, ég get ekki lesið þetta yfir.

Partýhelgin búin

Úff, ég verð að segja að ég hef ekki haldið svona hressilegt partý í háa herrans tíð, það voru 20 - 30 manns hér þegar mest var og allt fór fram með háværum en skemmtilegum hætti ( að mestu leyti). Ég hélt sem sagt vinnupartý. Það var nefnilega þannig að hann Jónas minn fór til Belgíu vegna vinnunar og eins og svo oft gerist þá leika mýsnar inni þegar kötturinn fer út, ég kom börnunum í pössun og ákvað að djamma soldið hressilega, sem ég svo gerði. Madda vinkona kom til mín um 8 leytið og þá var byrjað á smá breezer, svo gekk allt eins og átti að gera þar til Madda mín fór að gera eitt og annað af sér (nefnum engin smáatriði, en hún var aðeins of ástúðleg við rangann aðila). En allt í allt var þetta frábær skemmtun, verður samt ekki endurtekin á þessum skala á næstunni.
Skjáumst
Júllan

Langt síðan

Váá, nú er orðið langt síðan ég hef gefið mér tíma til að skrifa smá, en það er búið að vera svo mikið að gera að maður gleymir öllu nema vinnu, börnum og svefni. En alla vega er allt í lagi með okkur hérna heima, ég er meira að segja farin að fara á djammið öðru hverju aftur, hef ekki gert það að ráði lengi, alltaf gaman að djamma með vinnufélögunum, sérstaklega þegar er góð tónlist og hægt að dansa allan tímann.
 Annars er ég að komast á þá skoðun að margir íslenskir strákar gætu lært heilmikið af pólverjunum í skautsmiðjunnii, aðra eins herramenn hef ég bara sjaldan séð, þeir opna hurðir fyrir stelpurnar og bjóðast alltaf til að hjálpa ef eitthvað lítur út fyrir að vera erfitt eða þungt, þó að konur séu ekkert síðri eða aumari en karlmenn er samt alltaf gott að fá svona boð, manni finnst maður fá smá skammt af umhyggju eða eitthvað.
En anyway, þá ætla ég að fara að vinna núna og upplifa herramennskuna í strákunum okkar.
Skjáumst síðar
Júllan

Ekkert betra að gera við peningana

Væri ekki nær að finna lækningu við krabbameini eða einhverjum sjúkdómum en að eyða peningum og tíma í svona vitleysu.
mbl.is ÍE: Fjöldi barna tengist skyldleika para
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þá er bara að labba

Nú er tími til að taka fram gönguskóna og kuldagallann og labba í vinnuna, eða vera soldið slappur og hringja sig inn veikann.
mbl.is Ófærð í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ, nei

Þetta er hræðilegt, og einmitt þetta hús sem setti svo fallegann svip á miðbæinn. Vonandi verður reynt að byggja aftur upp í sama stíl og helst alveg eins.
mbl.is Stórbruni á Sauðárkróki í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband